kristján.annáll.is

Annáll
Sumrinu heilsað með kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju

Kristján Björnsson @ 15.45 16/4

Það stendur mikið til hjá Kaffihúsakór Landakirkju sumardaginn fyrsta. Nú kemur þessi kór, sem hefur verið að æfa og syngja gospel og trúarlega söngva í vetur undir stjórn Óskars Sigurðssonar, og syngur heila kaffihúsamessu í Grafarvogskirkju í Reykjavík.

Margir koma að messunni

Messan verður niðri í safnaðarheimili Grafarvogskirkju kl. 16.00 þann 19. apríl. Söngurinn verður örugglega góður og enginn svikinn af því. Við prestarnir í Landakirkju og prestar Grafarvogskirkju komum til með að leiða stundina með prédikun orðsins, bæn og blessun. Æskulýðsfulltrúar og fleiri koma að lestri og skipulagi og hægt verður að fá sér kaffi og kleinur á vægu verði, en aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.

Hugmyndin að kaffihúsakór 

Hugmyndin að kaffihúsakór fæddist í Landakirkju fyrir nokkrum árum þegar tónlistarfólk undir forystu Ósvaldar Freys Guðjónssonar og prestar kirkjunnar vildu freista þess að brjóta upp hnakkasamfélagið. Það gerum við með því að skapa notalega stemningu við guðsþjónustu í safnaðarsal kirkjunnar. Við sköpum umgjörð kaffihúss með því að fólkið situr við borð og kertaljós, slakar á og fær sér kaffi og með því á meðan stundin líður við söng og lifandi Orð Guðs. Prédikun prestanna hefur oftar en ekki verið samtalsprédikun eða samtal prestsins við söfnuðinn.

Fimm stjörnu fréttastýring sr. Hjartar Magna

Kristján Björnsson @ 21.47 8/4

Fréttastýring sr. Hjartar Magna var hreint frábær í siðanefndarmálinu hans. Það er nokkuð augljóst að hann kemur fréttinni að á góðum helgar-fréttatíma Stöðvar tvö um að hann hafi verið kærður af níu þjóðkirkjuprestum. Síðan fylgir hann því eftir á páskadag út frá því sjónarhorni að það er sr. Hjörtur Magni sem hefur andmælafrest gagnvart siðanefnd. Hann hefur fulla stjórn á málinu, “on top of it”, og ég efast um að það sé hægt að gera þetta betur. Mig minnir að það sé nokkuð langt síðan kæran var send til siðanefndar en þetta var einmitt besti tíminn til að setja fréttina af stað í helgarfrétt þegar lítið er annað að hafa. Hvort sem það er sjálfur sr. Hjörtur Magni eða einhver honum mjög velviljaður er ljóst að þetta er snilldarlega vel gert. Út frá sjónarhóli gamla blaðamannsins gef ég honum fimm stjörnur af fimm. Það eina sem skemmir fyrir er að formaður siðanefndarinnar upplýsti í því sem eftir honum var haft, að nefndin gefur ekki upplýsingar um mál sem eru fyrir nefndinni. Það verði málsaðilar sjálfir að gera.

Stórir helgir dagar páskanna og fíflalegt bingó

Kristján Björnsson @ 13.32 8/4

Prédikun mín á páskadagsmorgni í Landakirkju 2007 undir þessum titli er komin á vefinn landakirkja.is og einnig í moggabloggið mitt og vonandi á leiðinni í postilluna á kirkja.is Vona að þið njótið helgarinnar og páskagleðinnar í ríkum mæli.

Margir heiðra minningu sr. Péturs

Kristján Björnsson @ 18.19 9/3

Það bar vott um virðuleika og stöðu sr. Péturs í kirkju og þjóðlífi hversu margir komu að fylgdinni. Ég votta Ingu og ástvinum öllum dýpstu samúð við fráfall þessa mæta klerks. Blessuð sé minning hans. Eftir fylgjum við í bljúgri bæn og þökk til þín, kæri vinur og kollega.

 

© kristján.annáll.is · Færslur · Ummæli